Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 114/2016 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 114/2016

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15070016

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 30. júlí 2015, kærði Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl., f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júlí 2015, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita henni dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 7. júní 2013. Að mati Útlendingastofnunar var fyrir hendi rökstuddur grunur um að um málamyndahjúskap væri að ræða og hefði ekki verið sýnt fram á annað. Umsókn kæranda var því synjað með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. júlí 2015.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. júlí 2015. Með tölvupósti, dags. 31. júlí 2015, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 8. janúar 2016, eftir ítrekun kærunefndar þann 4. janúar 2016. Með tölvupósti, dags. 31. júlí 2015, var kæranda veittur frestur til 26. ágúst 2015 til þess að skila greinargerð og barst hún þann dag frá kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem stofnunin tiltók sérstaklega eru m.a. þau að mikill aldursmunur sé á milli kæranda og maka. Þá hafi þau þekkst í tiltölulega stuttan tíma áður en þau gengu í hjúskap. Jafnframt hafi önnur gögn í málinu stutt grun stofnunarinnar að um málamyndahjúskap hafi verið að ræða, t.d. að maki kæranda hafi sóst eftir yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins vegna fyrirhugaðs hjúskaps erlendis við aðra konu en kæranda. Maki kveðst ekki hafa vitað að kærandi ætti bróður á Íslandi fyrr en honum hafi verið kynnt það í viðtali hjá Útlendingastofnun. Það hafi stutt grun stofnunarinnar um málamyndahjúskap og þá sérstaklega þar sem umræddur bróðir hafi verið í hjúskap með dóttur fyrrum mágkonu maka. Þá hafi stofnunin grun um að fyrrverandi eiginkona maka kæranda væri enn búsett hjá honum, þar sem nafn hennar væri enn skráð þar á póstkassa. Var það mat stofnunarinnar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, og að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti af hálfu kæranda. Kæranda var því synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að hjónaband kæranda og maka hafi ekki verið stofnað í því skyni til að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Kærandi og maki séu afar hamingjusöm. Þá sé aldursmunur þeirra óviðkomandi málinu. Athugasemdir Útlendingastofnunar um aldursmun eigi ekki rétt á sér og endurspegli úrelt viðhorf um æskilega fjölskylduskipan. Þá sé það jafnframt málinu óviðkomandi að maki kæranda hafi áður sótt um leyfi til að giftast annarri [...] konu fyrir u.þ.b. fimm árum síðan. Maki hafi gefið viðhlítandi skýringa á þeim fyrirætlunum og af hverju hann hafi hætt við þann hjúskap. Það sé ekki undarlegt að maður af [...] uppruna vilji eiga konu af sama uppruna, sem tali sama tungumál og aðhyllist sömu trú og menningu.

Þá geri kærandi athugasemdir við að búseta bróður kæranda hafi áhrif í málinu. Auk þess er því hafnað að fyrrverandi eiginkona maka kæranda sé ennþá búsett hjá honum. Langt sé liðið frá því að maki skildi við hana og fásinna sé að halda því fram að þau búi saman. Maki kæranda hafi gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna nafn hennar hafi verið skráð á bjöllu á heimili hans.

Í greinargerð er jafnframt greint frá því að maki og kærandi hafi hist fyrir algjöra tilviljun í [...] og hafi þau strax náð vel saman. Þau hafi verið í fjarsambandi þar til maki hafi snúið aftur til [...] ári síðar og þau gift sig. Gerð er athugasemd við að sett sé út á það að þau hafi gift sig eftir stutt kynni. Maki hafi verið einhleypur um langt skeið og ekki þurft langan umhugsunarfrest.

Þá heldur kærandi því fram að tengsl maka kæranda við mann að nafni [...] sé hjúskap þeirra óviðkomandi, en umræddur maður búi hér á landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi maki kæranda verið spurður um tengsl sín við þann mann og því haldið fram að hann væri bróðir maka. Maki kveðst ekki þekkja umræddan mann.

Í greinargerð er því haldið fram að Útlendingastofnun hafi aðeins dregið fram þau atriði í viðtölum við kæranda og maka sem gætu ýtt undir grunsemdir um málamyndahjúskap. Stofnunin hafi ekkert fjallað um atriði sem bendi til þess að hjúskapur þeirra sé sannur og réttur. Kærandi og maki séu í stöðugu sambandi við hvort annað og bíði þess spennt að fá að sameinast á Íslandi. 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. laga um útlendinga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ásamt almennum skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur sé á þeim, þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða til fyrri hjónabanda. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað. Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi verður að skilja þannig að hún sé byggð á því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.

Við mat sitt á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða fjallar Útlendingastofnun ítarlega um málavöxtu alla og grundvallast mat stofnunarinnar á heildarmati á gögnum málsins. Það er mat kærunefndar að af gögnum málsins megi ráða að kærandi og maki þekki ekki til einstakra atvika eða atriða úr lífi hvors annars fyrir. Maki kæranda kvaðst til að mynda ekki þekkja bróður kæranda sem er búsettur hér á landi og var í hjúskap með dóttur fyrrum mágkonu maka. Auk þess er 22 ára aldursmunur með kæranda og maka. Jafnframt er ljóst að kynni þeirra hafi ekki verið mikil fyrir stofnun hjúskapar og þau hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar.

Í greinargerð með útlendingalögum er fjallað um leiðbeinandi sjónarmið þegar sú staða kemur upp að grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem að framan greinir varðandi samband kæranda og eiginmanns hennar eru, samkvæmt þeim leiðbeinandi sjónarmiðum, talin geta verið vísbending um að um málamyndahjúskap sé að ræða. Þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að afla einstaklingi dvalarleyfis hér á landi er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur sé um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til þess eins að afla kæranda dvalaleyfis sé á rökum reistur. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins fellst kærunefndin einnig á það með stofnuninni að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Það er því mat kærunefndar að umræddur hjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga.

Að framansögðu virtu er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                      Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum